loader
1 Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
1.1 Löggjöf
Bálkar Miðlun ehf, hér eftir ISX, starfar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með síðari breytingum. ISX er skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptavini, m.a. við stofnun viðskiptasambands, reglubundið eftirlit og/eða vegna einstakra viðskipta. Til að framkvæma áreiðanleikakönnun óskar ISX m.a. eftir persónuupplýsingum um viðskiptavin, t.d. nafni, kennitölu, lögheimili, starfsheiti/stöðu, símanúmeri, netfangi, fæðingarstað og ríkisfangi, auk fjárhagslegra upplýsinga. Lögaðilar skulu veita upplýsingar um nafn, kennitölu, lögheimili, lagalegt form, upplýsingar um stjórn, framkvæmdastjórn og prókúruhafa, sem og upplýsingar um raunverulega eigendur lögaðilans og hverjir hafi heimildir til að skuldbinda lögaðilann. ISX aflar jafnframt upplýsinga um uppruna þeirra fjármuna sem viðskiptavinur hyggst nota í viðskiptum hjá ISX, hvort viðskipti fari fram fyrir hönd þriðja aðila og upplýsinga um eðli og tilgang fyrirhugaðs viðskiptasambands og/eða viðskipta.
1.2 Áreiðanleikakönnun
Við áreiðanleikakönnun skal viðskiptavinur sanna á sér deili með framvísun gildra persónuskilríkja sem eru gefin út eða viðurkennd af stjórnvöldum, t.d. vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini eða fullgild rafræn skilríki. Eigi ólögráða viðskiptavinur ekki gild persónuskilríki getur lögráðamaður framvísað eigin persónuskilríkjum. Ef stofnað er til viðskiptasambands fyrir hönd lögaðila, fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila þurfa allir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri/-ar, prókúruhafar og raunverulegir eigendur lögaðilans að sanna á sér deili með fullgildum persónuskilríkjum. Sama á við um alla eigendur í húsfélagi þegar eignarhlutar í viðkomandi fjöleignarhúsi eru sex eða færri. Lögaðilar sanna á sér deili með því að framvísa vottorði úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eða sambærilegri opinberri skrá sem sannar skráningu viðkomandi lögaðila. Metið er hverju sinni hvort krafist er afrits af samþykktum lögaðila og/eða endurskoðuðum ársreikningi.
1.3 Eftirlit
ISX hefur áhættumiðað eftirlit með samningssambandi við viðskiptavin og aflar uppfærðra upplýsinga þegar þörf er á, hvenær sem er meðan á samningssambandi stendur. ISX ber auk framangreinds að kanna sérstaklega áreiðanleika viðskiptavina sinna við ákveðnar aðstæður þar sem sérstakrar varúðar er þörf. Í slíkum tilvikum áskilur ISX sér rétt til að kalla eftir viðbótargögnum, þ.m.t. persónuupplýsingum, um viðskiptavin til þess að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun. Gruni ISX að fjármunir þeir sem ætlun viðskiptavinar stendur til að fari um kerfi ISX séu ágóði af ólögmætri háttsemi og/eða tengist fjármögnun hryðjuverka áskilur ISX sér allan rétt til að stöðva umbeðin viðskipti án fyrirvara. Hafi ISX rökstuddan grun eða réttmæta ástæðu til að ætla að viðskipti séu grunsamleg með tilliti til peningaþvættis og/eða fjármögnunar hryðjuverka er ISX skylt að tilkynna viðskiptin til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu og láta henni í té allar nauðsynlegar upplýsingar vegna tilkynningarinnar. Viðskiptavini ber skylda til að láta ISX vita verði einhverjar breytingar á þeim upplýsingum sem ISX voru látnar í té við gerð áreiðanleikakönnunar.