Um Auroracoin

Um Auroracoin

Auroracoin er rafrænn gjaldmiðill sem tryggir örugg viðskipti milli ótengdra aðila án þess að reiða sig á miðlæga greiðslumiðlun líkt og notuð er í hefðbundna bankakerfinu.

 

Auroracoin er rafeyrir Íslendinga og byggir á sömu tækni og Bitcoin. Frá því Bitcoin kom til sögunnar árið 2009 hefur myntin hlotið sívaxandi útbreiðslu og er nú gjaldgeng hjá yfir 100 þúsund seljendum vöru og þjónustu um víða veröld, þeirra á meðal Microsoft, Dell, Wikipedia, Twitch, Greenpeace og Expedia.

 

Líkt og Bitcoin, notar Auroracoin svonefnda blockchain-dulkóðun til að flytja rafeyri beint frá kaupanda til seljanda á öruggan hátt. Millifærslan fer þannig fram að Auroracoin-netið í heild uppfærir og staðfestir hverja færslu, og þegar ákveðnum fjölda staðfestinga er náð verður færslan í senn óafturkallanleg og rekjanleg. Reikningsnúmer notenda rafmynta eru hins vegar handhafanúmer og innihalda engar persónuupplýsingar.

 

Heildarupplag Auroracoin er 21.000.000 AUR og mun aldrei verða hægt að slá meira af myntinni en sem þessu nemur. Sérstaða Auroracoin miðað við Bitcoin er að Í upphafi voru slegnir 10.500.000 AUR, sem dreift var til allra Íslendinga sem þess óskuðu. Yfir 40.000 manns þekktust boðið og sóttu ýmist 31,8 AUR hver í fyrstu dreifingu þann 25. mars 2014 eða 318 AUR í annarri dreifingu og 618 AUR í þriðju og síðustu dreifingu. Því umframmagni sem ekki var sótt var síðan eytt á rekjanlegan hátt. Síðan 2014 hefur Auroracoin gengið kaupum og sölum á erlendum skiptimörkuðum, en með tilkomu ISX er nú í fyrsta sinn hægt að skiptast á Auroracoin og íslenskum krónum.

 

Áfram er unnið að myntsláttu eða “námuvinnslu” á Auroracoin. Myntsláttan fer þannig fram, að tölvur keppast um að leysa stærðfræðiþraut, og geta verðlaunin mest numið 12,5 AUR á um fimm mínútna fresti. Á hverjum fjórum árum helmingast svo verðlaunin og verður síðasta myntin unnin með námuvinnslu í kringum árið 2140, þegar endanlegt upplag Auroracoin nær hámarki, 21.000.000 AUR. Námuvinnslutölvurnar halda um leið greiðslumiðlunarkerfi Auroracoin uppi og er myntsláttan umbun fyrir það.

 

Öfugt við hefðbundna gjaldmiðla sem bankar geta “prentað” að vild með því einu að veita lán og leggja andvirði þess inn á hlaupareikning, eru rafmyntir þeim eiginleika gæddar að geta hvorki orðið fyrir ófyrirsjáanlegri peningamagnsþenslu. Öfugt við íslensku krónuna er Auroracoin auk þess gjaldgeng á erlendum skiptimörkuðum, sem vinnur gegn sveiflum og mun í framtíðinni auðvelda mjög erlend viðskipti fyrir Íslendinga.

 

Til að fá nánari lýsingar á tækninni og hagfræðilegum eiginleikum Auroracoin er vísað á heimasíðu Auraráðs, félags áhugafólks um framgang Auroracoin á Íslandi: http://aurarad.is.

 

ISX-skiptimarkaðurinn heldur utan um Auroracoin-inneign viðskiptavina sinna, en AUR-inneign utan skiptimarkaðarins má varðveita í rafrænu veski sem hægt er að ná í hér.

 

 

 

Hér eru hlekkir á vefsíður sem tengjast Auroracoin:

http://auroracoin.is/

http://aurarad.is/

http://auroraspjall.is/